Skattspor og margfeldisáhrif veita takmarkaða leiðsögn um stuðning við kvikmyndagerð
Samtök iðnaðarins greina frá því að skattalegt framlag kvikmyndagerðar árið 2023 sé 7,4 milljarðar króna með virðisaukaskatti. Sama ár námu styrkir til kvikmyndagerðar 4,7 milljörðum. Þar af voru endurgreiðslur af skattgreiðslum liðlega 3 milljarðar og styrkir úr Kvikmyndasjóði tæplega 1,2 milljarðar. Samtals hafi greinin greitt 1,6 sinnum meira í beina skatta en nam stuðningi hins opinbera (sjá nýja skýrslu Reykjavík Economics).
Jafnframt er í frétt samtakanna minnt á úttekt Olsberg SPI á endurgreiðslum af opinberum gjöldum af kvikmyndagerð. Niðurstaða fyrirtækisins er að fyrir hverja krónu sem ríkið endurgreiði kvikmyndaframleiðendum sé ávinningur fyrir íslenskt samfélag 6,8 krónur.
Í þriðja lagi nefna Samtök iðnaðarins að áætlað hafi verið að 37,4% þeirra sem hingað koma hafi fengið hugmyndina þegar þeir sáu íslenskt landslag í sjónvarpi eða kvikmynd.
Skýrsla um skattspor kvikmyndagerðar virðist vera vel unnin og eftir viðurkenndum aðferðum, en eftir stendur spurningin: Hvernig á að túlka niðurstöðuna? Langflest fyrirtæki greiða meira í skatta en þau fá greitt frá hinu opinbera. Málið er að kvikmyndagerð keppir um vinnuafl, fjármagn og aðföng við alls kyns rekstur sem fær engan opinberan stuðning. Stuðningurinn verður til þess að að starfsemi, sem ekki er studd, verður að þoka fyrir kvikmyndagerð. Ef ekki kæmi annað til mætti ætla að það rýrði lífskjör hér á landi.
Margfaldarar eru líka vel þekktir, þó að 6,8 sé reyndar hærri tala en oftast heyrist. Gallinn við margfaldarana er líka að erfitt er að útskýra hvað þeir þýða. Þeir eiga að sýna hve mikil starfsemi tengist tilteknum rekstri. Stundum má túlka þá sem byggðaáhrif. Ef kvikmyndaver er sett niður í Aðalvík má til dæmis ætla að þar spretti upp alls kyns þjónusta sem tengist kvikmyndagerðinni aðeins óbeint. En nýr atvinnurekstur ryður jafnan annarri starfsemi í burtu og ruðningsáhrifin eru þeim mun meiri sem svæðið er stærra sem skoðað er. Vel getur verið að umsvif í kvikmyndagerð hafi ýtt undir hagvöxt á Íslandi undanfarin ár, en líklega eru áhrifin minni en 6,8-föld endurgreiðsla á styrkjum til kvikmyndagerðar. Mestu skiptir samt að hæpið er líta á áhrif kvikmyndagerðar á hagvöxt sem hreinan ávinning fyrir landið. Kvikmyndagerð nýtir starfsfólk, fjármagn og aðföng, sem ella hefði nýst til annarra verkefna - verkefna sem ekki njóta styrkja úr ríkissjóði.
Hagfræðistofnun er ekki alveg saklaus í þessu máli. Í skýrslu hennar frá 2005 er rætt um ársstörf og launagreiðslur sem tengja má kvikmyndum, sem fengu endurgreiddar skatttekjur árið 2004, en ekki er gengið jafnlangt í túlkun á slíkum áhrifum og í skýrslu Olsberg SPI.
Eftir stendur þriðja atriðið sem nefnt er í frétt Samtaka iðnaðarins. Kvikmyndagerð á Íslandi auglýsir landið og ýtir undir áhuga á ferðum hingað. Það eru góð og gild rök fyrir stuðningi við kvikmyndagerð á Íslandi, þó að auðvitað megi deila um hvað stuðningurinn á að vera mikill. Auk þess eru menningarleg rök fyrir framlögum í Kvikmyndasjóð. Óvíst er aftur á móti að skattspor og margfaldarar veiti mikla leiðsögn þegar ákveða skal stuðning við kvikmyndagerð.