
Ólafur Margeirsson kynnti bók sína Peningar, Hvað þeir eru, hvaðan þeir koma á málstofu Hagfræðistofnunar 6. júní síðastliðinn. Fyrst ræddi hann þá niðurstöðu margra fræðimanna að gildi peninga byggðist á trausti, en ekki gull- eða silfurinnihaldi. Vald, lög og hefðir væri grundvöllur gjaldmiðla. Gullfótur er aðeins ein leið til þess að búa til traust á gjaldmiðli, en aðrar leiðir eru að takmarka framboð eða innheimta skatta í gjaldmiðlinum. Ólafur ræddi líka hvernig traust á gjaldmiðli hverfur. Hann ræddi síðan hvernig viðhorf til ýmissa efnahagsaðgerða breytist þegar peningar eru óhlutbundnir. Fremur er til dæmis spurt um áhrif ríkisframkvæmda á verðbólgu en það hvort ríkissjóður hefur strangt til tekið efni á framkvæmdunum.
Ólafur talaði í um 45 mínútur, en síðan tóku við spurningar og umræður í um það bil 15 mínútur. Rúmlega 30 manns hlýddu á fyrirlesturinn. Hér má sjá upptöku af honum.