Stefnir í orkuskipti í rafmagnsframleiðslu um allan heim á fáum áratugum
Hagfræðingar deila um hvaða raunávöxtunarkröfu eigi að gera þegar tjón af hlýnun jarðar er metið. Lág ávöxtunarkrafa þýðir að tjón á komandi áratugum telst mikið að núvirði, en matið lækkar með hækkandi ávöxtunarkröfu. Flestir eru þó sammála um nauðsyn þess að taka upp samræmt og gegnsætt kolefnisgjald um allan heim. Gjaldið þarf að endurspegla þjóðhagslegan kostnað af losun koltvísýrings. Vel útfært kolefnisgjald verður til þess að fólk tekur tillit til losunar í hegðun sinni. Jafnframt flýtir það fyrir þróun tækni sem dregur úr losun. Kolefnisgjald er einfaldasta loftslagsaðgerðin og oft sú hagkvæmasta. Ef það er rétt reiknað er það í samræmi við tjón af losun. Innflutningur með skipum hingað til lands veldur ekki mikilli losun á hvert kg sem flutt er inn, en losunin er meiri þegar vörur eru fluttar með flugvélum. Ekki væri hátt kolefnisgjald á tómötum frá Spáni, sem koma með skipum, en það yrði hærra á bandarísku káli, sem flutt er með flugvélum. Stuðningur við innlenda tómatarækt er óhagstæðasta loftslagsaðgerðin á hvert kg losunar. Niðurgreiðslur á rafmagnsbílum brengla kauphegðun, en verð fellur á rafhlöðum, þannig að stutt er í að rafmagnsbílar verði í reynd hagkvæmari en bensínbílar í öllum heimsálfum. Rafmagn úr sólarsellum og vindmyllum fellur líka í verði og mun á fáum áratugum ýta burt jarðefnaeldsneyti úr rafmagnsframleiðslu um heim allan. Kolefnislosun á mann fer þegar minnkandi í heiminum, þó að heildarlosun vaxi enn. Aðgerðir gegn hlýnun virðast þannig hafa borið árangur, þó að nýjustu greiningar sýni að gera þurfi mun meira. Best er að sem flest lönd taki þátt í átakinu en málið er ekki ónýtt þó að einhverjir skerist úr leik.
Þetta kom fram á málstofu Hagfræðistofnunar um loftslagsmál sem haldin var 28. mars síðastliðinn. Hér má heyra fyrirlestur Sigurðar Jóhannessonar og umræður um hann og hér eru glærur af fyrirlestrinum. Gestir voru um 40, en nokkrir þurftu frá að hverfa vegna plássleysis.