Header Paragraph

Ný skýrsla um ástand efnahagsmála á haustmánuðum

Image

Staða Íslands í samfélagi þjóðanna er um margt góð. Hvernig svo sem velferð er mæld, er landið meðal þeirra ríkja þar sem hún er mest. Ísland mælist hátt í tekjum, félagslegum tengslum, heilsufari, ánægju með lífið, og lágri glæpatíðni. Þeir veikleikar sem draga Ísland helst niður eru húsnæðismál, menntun og jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.

Atvinnulíf er orðið fjölbreyttara en áður. Ferðaþjónusta og sjávarútvegur eru ekki einu stóru útflutningsgreinarnar heldur er iðnaður nú orðinn stærri en sjávarútvegur í útflutningsverðmæti.

Það sem einkum gerir Íslendingum lífið erfitt þessa dagana er staðan á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð hefur hækkað meira hér en í flestum grannlöndum undanfarin ár og vextir hafa verið mun hærri. Það má skýra með þróun efnahagsmála hér á landi, einkum því að innlend eftirspurn hefur verið mikil. Nú eru aftur á móti merki um að dregið hafi úr  framleiðsluspennu og verðbólguþrýstingi. Það skapar svigrúm til vaxtalækkana. Á móti vegur að verðbólgumælingar eru yfir markmiði. Það gæti skýrt  hversu þrálát verðbólga hefur verið hér á landi í samanburði við flest önnur  lönd. En nýlegir kjarasamningar vekja vonir um að verðbólguvæntingar séu í raun lægri en þær sem mælast á skuldabréfamarkaði.

Mikilvægt er að búa svo um í framtíðinni að ekki þurfi að hækka vexti jafn mikið til þess að hemja verðbólgu og gert hefur verið undanfarin ár.

Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs gerir framkvæmd peningastefnu erfiða.  Húsnæði er bæði neysluvara og fjárfestingarvara en kemur samt inn að fullu í neysluverðsvísitöluna. Töluverður hluti leigusamninga er nú tengdur verðbólgu þannig að hækkun mældrar verðbólga getur valdið þrálátum verðhækkunum. Þannig verður verðtrygging til þess að lengri tíma tekur að ná verðbólgu niður en ella.  Hækkun vaxta getur einnig hækkað arðsemiskröfu fjárfesta. Við það hækkar húsaleiga að gefnu húsnæðisverði. Þannig flækist fjárfestingarhluti húsnæðis fyrir framkvæmd peningastefnu og getur verið ein ástæða fyrir verðbólgu og háum vöxtum um þessar mundir. Ekki er þó lagt til að húsnæðisliðurinn sé lagður niður heldur þeirri spurningu varpað fram hvort breyta eigi skilgreiningu á stöðugu verðlagi í framkvæmd peningastefnu Seðlabankans.

Nokkrar tillögur eru lagðar fram til úrbóta. Lagt er til að sett verði stöðugleikaregla í ríkisfjármálum sem kæmi í stað núverandi afkomureglu og auki virkni ríkisfjármála við hagstjórn. Þá verði lagt mat á umfang útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna í þéttbýli og gripið til aðgerða til að halda aftur af verðhækkunum húsnæðis ef nauðsynlegt þykir. Einnig er lagt til að boðnir verði bundnir sparnaðarreikningar í bönkum eða lífeyrissjóðum, sem njóti skattalegs hagræðis hvað ávöxtun varðar, til þess að búa til meiri hvata til sparnaðar þegar eftirspurn er mikil í hagkerfinu. Skattar á verðbólgu verði lækkaðir og kerfi virðisaukaskatts einfaldað í átt til kerfis með einu skattþrepi. Að síðustu er lagt til að gerðar verði breytingar á vinnumarkaði. Ríkissáttasemjara verði auðveldað að leggja fram miðlunartillögu þegar hann sér ástæðu til og tekið verði upp sameiginlegt samningsmarkmið svipað því sem stuðst er við annars staðar á Norðurlöndum.

Gylfi Zoega og Sigurður Jóhannesson eru höfundar skýrslunnar, sem er unnin fyrir forsætisráðuneytið.

Skýrsluna má finna hér.