Header Paragraph

Arðsemi af háskólanámi minnkaði við hrun bankanna

Image

Ýmislegt bendir til þess að íslensku menntakerfi takist ekki vel að beina nemendum á réttar brautir. Færri eru í starfsnámi á framhaldsskólastigi en í öðrum norrænum ríkjum. Námsval ræðst fremur af samfélagsviðhorfum en hæfileikum hvers og eins. Hér hafa tæp 40% fólks á aldrinum 25-34 ára aflað sér háskólamenntunar, en um helmingur í Noregi og Svíþjóð. Þá er kynjamunur meðal háskólafólks sá þriðji mesti í löndum OECD (auðugum löndum), körlum í óhag. Ávinningur karla af háskólanámi er þó mun meiri en kvenna. Greiningin leiðir í ljós að kennarar hafa áberandi lakari kjör en aðrar háskólastéttir, en konur eru tæp 80% þeirra sem starfa að fræðslu hér á landi. Arðsemi af háskólanámi er minni um þessar mundir en fyrir hrun bankanna 2008. Arðsemi íslenskra námsmanna af háskólamenntun er talin um 10%, en hún er 17% að meðaltali í löndum OECD. Marka þarf stefnu um það hvernig best má tryggja sanngjörn kjör í störfum sem hið opinbera situr eitt að, svo sem í skólum og heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að hæft starfsfólk fáist að þessum greinum. Með slíkri launastefna mætti líka rétta hlut kvenna á vinnumarkaði.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Gylfa Zoega, Andra Sigmarssonar Schevings og Hjörvars Blæs Guðmundssonar. Skýrsla um efnið var unnin fyrir BHM, en það tengist víðtækri rannsókn á sparnaðarhegðun Íslendinga sem unnin er í samvinnu við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn og fjármögnuð af styrk frá Rannsóknasjóði Íslands, hagfræðideild HÍ og rannsóknastofnuninni PeRCent.