Header Paragraph

Virk samkeppni skiptir ekki minna máli en eignarhald

Image

Oft er því haldið fram að fyrirtæki í einkaeigu séu betur rekin en fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, en rannsóknir benda til þess að samkeppni ráði meira um hagkvæmni í rekstri en eignarhaldið. Stutt er síðan fyrirtæki tóku að keppa um hylli neytenda á nokkrum mörkuðum, sem opinber fyrirtæki sátu áður ein að. Eftirlitsstofnanir hafa verið í lykilhlutverki við að jafna aðstæður til samkeppni á þessum mörkuðum, en oft gengur hægt að koma þeim breytingum á sem krafist er. Meðal annars er reynt að sjá til þess að fyrirtæki noti ekki tekjur  af einkasölu til þess að styðja við samkeppnisrekstur. Árið 2014 stofnaði Orkuveita Reykjavíkur sjálfstæð dótturfyrirtæki um samkeppnisrekstur sinn og sérleyfisrekstur. Þá voru liðin rúm fimm ár frá því að þess var fyrst krafist í lögum. Ríkisútvarpið hefur nokkrum sinnum farið fram yfir fresti sem það hefur fengið til þess að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur sinn, eins og lög krefjast. Á fulltrúum þess og menntamálaráðuneytisins mátti skilja að breytingin væri óþörf og leiddi til óhagræðis, en Ríkisendurskoðun áréttaði á móti að skylt væri að fara að lögum um þetta efni sem önnur. Einkaleyfi Íslandspósts á bréfasendingum féll endanlega niður í ársbyrjun 2020. Flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu höfðu afnumið einkarétt á póstþjónustu í ársbyrjun 2011, eins og áskilið var í tilskipun um það efni. Íslendingar skutu því á frest og fylgdu þar Norðmönnum, en þeir virðast hafa verið einir á báti eftir að ný póstlög tóku gildi í Noregi í ársbyrjun 2016. 

Margt hefur breyst í átt til jafnræðis með fyrirtækjum hins opinbera og einkafyrirtækjum á undanförnum árum, en ýmislegt má gera betur. Draga má úr hættu á að beinar og óbeinar eigendaábyrgðir á lánum skekki samkeppnisstöðuna með því að setja fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga töluleg markmið um arðsemi á öllu fé sem bundið er í rekstrinum, eins og gert er í Svíþjóð, Noregi og víðar. Sjálfsagt virðist að bjóða út grunnþjónustu í póstflutningum, sem ríkið niðurgreiðir, í stað þess að binda hana við Íslandspóst. Reynsla héðan og frá öðrum löndum bendir ótvírætt til þess að spara megi fé með útboðum. Útboð eru líka ágætisleið til þess að verðleggja þjónustuna. Þá má íhuga þann kost að stofna nokkur sjálfstæð fyrirtæki utan um þann hluta rafmagnsframleiðslu Landsvirkjunar sem sinnir almennum heildsölumarkaði, en þar er Landsvirkjun í reynd einkasali. Að síðustu mætti skoða betur kosti þess og galla að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Þá mundi staða keppinauta þess ekki aðeins batna, heldur yrði hvatinn líka minni fyrir það til þess að sækja á sömu mið og aðrir fjölmiðlar. Ríkisútvarpið mundi síður flytja efni sem nóg framboð er af á frjálsum markaði og leggja meira upp úr því sem aðrir vanrækja.  

Rætt er um áhrif fyrirtækja hins opinbera á samkeppni í skýrslu Hagfræðistofnunar