Header Paragraph

Verðbólga lifnar við með haustinu

Image
Verðbólga og launahækkanir

Ársverðbólga lækkar að öllum líkindum næstu mánuði. Krónan heldur áfram að styrkjast þegar ferðamenn taka að streyma inn í landið. Þá má gera ráð fyrir að atvinnuleysi nálgist hratt náttúrlegt stig – það sem samsvarar óbreyttri verðbólgu. Straumur ferðamanna þrýstir líkast til upp verði á húsnæði í miðborg Reykjavíkur. Því er spáð að verðbólga taki aftur við sér með haustinu. Ársverðbólga vaxi jafnt og þétt allt fram á mitt næsta ár og nálgist þá aftur verðbólgumarkmiðið. Verðlag í Evrópusambandinu er hér notað til þess að áætla verð á innflutningi. Gert er ráð fyrir að það hækki heldur hraðar á næstunni en verið hefur og árshækkunin nálgist 1½% á komandi ári. Þá er reiknað með að Seðlabankinn hækki meginvexti sína í nokkrum áföngum í 2% snemma á næsta ári og þeir verði þá jafnháir og þegar faraldurinn skall á. Spáin breytist lítið þó að vextir hækki hraðar í 2%. Þeir þurfa að hækka meira ef þeir eiga að breyta einhverju sem um munar um verðbólguna. Þar fyrir utan spáir líkanið sér að mestu leyti sjálft – enda segir það aðeins fyrir um breytingar til skamms tíma.

Þegar horfur um verðbólgu og aðrar hagstærðir eru skoðaðar er rétt að hafa nokkur atriði í huga:

  • Mikil óvissa er í öllum spám – eins og sjá má til dæmis á mynd sem sýnir óvissumat í verðbólguspá Seðlabankans. Framan af öldinni var verðbólga langtímum saman utan við líkindadreifingu í nýlegum spám bankans, en óvissumatið, sem nú er sýnt með spám hans, er líkast til raunhæfara. Níutíu prósenta óvissubil um verðbólgu ár fram í tímann nær frá núlli upp í fimm prósent.

  • Ýmislegt styður samt þá tilfinningu að framundan sé þensla á vinnumarkaði og vaxandi verðbólga. Vextir seðlabanka hafa sjaldan verið lægri og mikill halli er á ríkissjóði. Eignaverð hefur hækkað meira en annað verðlag að undanförnu, en hækkun þess er oft fyrirboði um að almenn verðbólga fari hækkandi.

  • Nokkur tími líður frá því að brugðist er við verðbólgu þar til viðbrögðin hafa áhrif. Þetta á bæði við um meginvexti Seðlabanka og ákvarðanir um ríkisfjármál.

  • Það er ekki rétt sem stundum má skilja á orðum manna um efnahagsmál – ekki síst þeirra sem móta efnahagsstefnuna um þessar mundir – að kaupkröfur verkalýðsfélaga tengist ekki efnahagsástandinu. Hækkun lágmarkslauna að undanförnu endurspeglar þannig eftirspurn eftir ófaglærðu vinnuafli um það leyti sem síðustu kjarasamningar voru gerðir.

  • Bankar hafa hagsmuna að gæta í efnahagsumræðunni. Þeirra hagur er að seðlabankavextir séu sem lægstir. Lágir vextir draga úr hættu á vanskilum sem geta komið áhættusæknum lánveitendum í vanda.

Image
Verðbólga og launahækkanir