Header Paragraph

Tekjur hinsegin karla 70% af tekjum gagnkynhneigðra

Image

Atvinnutekjur hinsegin karla voru 70% af tekjum gagnkynhneigðra árið 2020, en tekjur hinsegin kvenna voru jafnar tekjum gagnkynhneigðra kvenna. Nokkru munar á tekjum fólks eftir því hvort það er í sambúð eða ekki. Karlar sem bjuggu með öðrum körlum voru með 68% af tekjum karla sem bjuggu með konum. Konur í sambúð með konum voru aftur á móti með 13% meiri atvinnutekjur en þær sem bjuggu með körlum. Ekki breytir miklu þó að horft sé á fleiri skýringar á launamuninum, til dæmis aldur eða menntun. Niðurstöðurnar eru í nokkru samræmi við niðurstöður svipaðra rannsókna í öðrum löndum. 

Atvinnuöryggi er minna hjá hommum og lesbíum í sambúð en þeim sem búa með karli eða konu af gagnstæðu kyni, en litlu munar á lesbíum og gagnkynhneigðum konum. 

Karlar sem búa með konum fá 13% hærri tekjur en einhleypir (karlar og konur), en konur sem búa með körlum eru með 5% minni tekjur en einhleypar konur. Þetta passar líka við aðrar rannsóknir. 

Ýmsar skýringar eru á þeim mun á atvinnutekjum sem hér birtist. Ekki er hægt að útiloka að fordómar og mismunun skýri hann að hluta. Önnur skýring er val á starfsvettvangi, en þar kunna staðalímyndir að koma við sögu. Enn ein skýring er að hvati til tekjuöflunar er mismikill. Hann eykst til dæmis þegar börnum á framfæri fjölgar. 

Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu Andra Schevings og Gylfa Zoega. Skýrslan er gerð að beiðni Bandalags Háskólamanna, Alþýðusambands Íslands og BSRB.