Header Paragraph

Skuldir ÍL-sjóðs verða skuldir A-hluta ríkisins að óbreyttu

Image

Evrópska hagstofan, Eurostat, benti á það fyrir nokkru að Íbúðalánasjóður stæðist ekki skilyrði um að vera sjálfstæð stofnun og að flokka ætti hann sem hluta af hinu opinbera. Hið sama ætti við um ÍL-sjóð, sem stofnaður var upp úr honum. ÍL-sjóður verður stofnun í A-hluta ríkissjóðs í ríkisreikningi 2022 og skuldir hans verða þá færðar sem skuldir ríkissjóðs - á sama hátt og skuldir Landspítala, svo að dæmi sé tekið. Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum í viðskiptadeild Háskóla Íslands, telur að þetta sé ein af ástæðum þess að nú eru boðaðar aðgerðir til þess að draga úr skuldum sjóðsins. Þetta kom fram á málstofu Hagfræðistofnunar 4. nóvember. Í erindi sínu fór Hersir yfir það hvað ábyrgð ríkisins á bréfum sjóðsins þýðir. Hann minnti á að í skilmálum íbúðabréfa kemur fram að Íbúðalánasjóður sé ríkisstofnun og verði ekki tekinn til gjaldþrotaskipta. Hann ræddi síðan hvort slit ÍL-sjóðs með lagasetningu, einn kosturinn sem fjármálaráðherra hefur nefnt, jafngilti greiðslufalli ríkisins. Ef sú leið verður farin uppfyllir ríkið ekki að fullu ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Leiðin fellur hugsanlega undir algenga skilgreiningu á enska orðinu default, sem Hersir kallar vanefnd á íslensku. Breyta þurfi lögum til þess að leiðin sé fær. Hún sé því augljóslega ekki í samræmi við gildandi lög. 

Miðað við markaðsvirði íbúðabréfa um mitt ár myndu eignir lífeyrissjóða skerðast um tæp 2,5% ef ÍL-sjóði væri slitið með lögum. En skerðingin  kæmi ekki jafnt niður á öllum lífeyrisþegum, því að hún hefur engin áhrif á þá sem eiga í sjóðum með bakábyrgð launagreiðenda. 

Ríflega 30 manns sóttu málstofuna, en 5-10 manns fylgdust með á streymi. 

Sjá má glærur Hersis hér og hér á eftir má sjá upptöku af málstofunni: fyrri hluta og seinni hluta