Óvíst að verðbólga haldist innan vikmarka á seinni helmingi árs
Hagfræðistofnun hefur annað slagið spáð verðbólgu og fleiri hagstærðum til skamms tíma. Líkanið spáir sér mikið til sjálft, þannig að skoðanir spámanna eiga ekki að hafa mikil áhrif á útkomuna. Núna er gert ráð fyrir að hægt dragi úr ársverðbólgu á næstu mánuðum, en frá miðju ári taki hún aftur að hækka og verði rúm 5% frá janúar 2025 til janúar 2026. Hækkun ársverðbólgunnar, sem hér er spáð, stafar ekki af því að búist sé við mjög vaxandi verðhækkunum á næstunni, heldur fyrst og fremst því að verðlag hækkaði lítið á seinni helmingi árs 2024 og þess hættir að gæta þegar líður á þetta ár. Óvissa er töluverð og hún vex þegar líður á spátímann. Um helmingslíkur eru taldar á því að verðbólga á árinu verði á bilinu 4-7%.
Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði nokkru meira árið 2025 en árin á undan. Nokkuð hægir á kauphækkunum, en meðallaun hækka samt hraðar en verðlag. Búist er við að töluvert dragi úr verðhækkunum á húsnæði. Áfram verður mikið byggt af íbúðarhúsnæði og gistinóttum ferðamanna fjölgar heldur.
Hér er gerð nánari grein fyrir spánni.