Header Paragraph

Neytendur telja ábata af áfengi meiri en kostnað

Image

Neysla áfengis leggur byrðar á heilbrigðiskerfið, hún veldur örorku, sem bætt er úr ríkissjóði, auk þess sem ríkið rekur meðferðarheimili þar sem tekið er á áfengisfíkn.  Kostnaður annarra en neytenda af áfengisneyslu er hér talinn vera 2½-6 milljarðar króna á ári. Auk þess veldur ofneysla áfengis þjáningum hjá aðstandendum og vinum drykkjumanna, sem ekki eru verðlagðar hér. En mestan kostnað af neyslunni bera neytendur sjálfir. Samtals er tjón á heilsu og lífi neytenda, auk eignatjóns í umferðarslysum, metið á 3-6 milljarða króna á ári. Við þetta bætist innkaupsverð áfengisins. Alls kostar áfengi landsmenn um eða yfir 22 milljarða króna á ári, eða um 0,9% af landsframleiðslu. Þar af kostar varan sjálf, án sérskatta, um 60%, en afleiðingar neyslunnar fyrir neytendur og aðra nema 40% af kostnaðinum. Líklega eru margir kostnaðarliðir vanmetnir, og suma vantar alveg.

Áfengi er í huga kaupenda að minnsta kosti virði þess sem borgað er fyrir það. Margir mundu drekka áfram þótt það kostaði þá meira. Með öðrum orðum telja þeir sig hagnast á því að kaupa áfengi á því verði sem nú er í boði. Óvissa er í matinu, einkum um það hvað neytendur vilja í hæsta lagi borga fyrir áfengið, en niðurstaðan er sú að áfengi sé í huga neytenda 17-42 milljörðum meira virði en nemur kostnaði samfélagsins af neyslu þess (á myndinni hér fyrir neðan er alls staðar stuðst við það mat sem gefur minnstan samfélagsábata). Í matið vantar kostnaðarliði, til dæmis áhrif drykkjunnar á aðstandendur þeirra sem drekka. 

Meginforsendan í mati á ábata neytenda af drykkja er að þeir viti sjálfir best hvað þeim er fyrir bestu. Segja má að það sé afstaða samfélagsins: Fólki er frjálst að kaupa áfengi meðan það hefur efni á því, en þarf ekki til dæmis að sýna tilvísun frá lækni. Samkvæmt kenningunni um skynsamlega fíkn gera menn sér grein fyrir hættunni af áfengi áður en þeir bragða fyrsta sopann. Margir telja það samt áhættunnar virði. Kenningin segir að drykkjumenn hegði sér skynsamlega þegar á allt er litið. En hegðunarhagfræðin hafnar því að menn láti skynsemina alltaf ráða. Þá verður ábatamatið flóknara.

Þessar upplýsingar má finna í skýrslu um Áhrif áfengis á þjóðarhag

 

Image