Nægir þjóðarsátt á vinnumarkaði til þess að kveða verðbólguna niður?
Sú hugmynd er vinsæl að nóg sé að semja um hóflega hækkun kauptaxta til þess að ná verðbólgunni niður. Þá telja margir að ástand á vinnumarkaði breyti engu um kaupkröfur eða verðlag. Þetta var umfjöllunarefnið á málstofu Hagfræðistofnunar föstudaginn 5. janúar. Sigurður Jóhannesson kynnti spá um verð, laun, stýrivexti Seðlabanka, gistinætur erlendra ferðamanna og fleiri hagstærðir á árinu. Hann benti á að erfitt hefði reynst í seinni tíð að meta skammtímaáhrif launa á verðlag. Óvíst væri að þau væru mjög mikil. Hætta á hækkun kauptaxta kallaði ekki á skyndilausnir eins og vaxtalækkun eða tugmilljarða ríkisútgjöld, án þess að skattar hækkuðu á móti. Slíkar aðgerðir græfu undan stöðugleika þegar frá liði. Hann minnti á þjóðarsáttina árið 1986 þegar draga átti úr verðbólgu með því að lækka tolla og skatta og greiða niður verð á búvörum. Reynslan benti til þess að það dygði skammt að semja um litlar kauphækkanir ef ekki fylgdi aðhald í hagstjórn.
Fjörugar umræður urðu á málstofunni. Meðal annars var bent á að kjarasamningar gætu haft áhrif á væntingar um verðbólgu og þannig haft meiri áhrif en virtist við fyrstu sýn. Um 20 manns fylgdust með á staðnum og í streymi. Upptaka af málstofunni er hér, en hér eru glærurnar.