Mongólar hafa árætt að opna landið upp á gátt...
Þorvaldur Gylfason flutti skemmtilegan fyrirlestur um ástand mála í Mongólíu 21. nóvember. Mongólía hefur verið lýðræðisríki í rúma þrjá áratugi - allt frá hruni kommúnismans - þótt landið sé umlukt tveim stórveldum þar sem lýðræði og mannréttindi standa höllum fæti. Lög og réttur standa styrkari fótum en í löndum á svipuðu tekjustigi. Efla þarf menntun í landinu, en um 80% ungmenna á framhaldsskólaaldri ganga nú í skóla. Að meðaltali eiga mongólskar konur nú þrjú börn. Um tíma voru börnin orðin færri, en stjórnvöld tóku þá að styðja við barneignir. Meðalævi er aðeins um 66 ár - sex árum lengri en 1990. Útflutningur landsins er enn fábreyttur en vel samkeppnishæfur. Mongólar ,,hafa árætt að opna landið upp á gátt og eiga mikil viðskipti - ekki bara við Rússa og Kínverja heldur við Evrópu og Bandaríkin og allan heiminn. Nú hefur þessi tilraun staðið í 35 ár og hún stendur enn með blóma.“ Hagvöxtur hefur að jafnaði verið um 3% á ári undanfarna áratugi.
Fundargestir voru á annan tug og voru umræður fjörugar, eins og heyra má hér.