Header Paragraph

Mikil andstaða við þá hugmynd að rafmagn sé markaðsvara

Image

Daði Már Kristófersson prófessor ræddi þörf fyrir inngrip ríkisins á rafmagnsmarkað á málstofu Hagfræðistofnunar föstudaginn 27. janúar. Hann ræddi meðal annars hugmyndir um að gefa almennum markaði forgang að rafmagni. Gallar væru á þeirri leið. Meðal annars mundi draga úr hvata til að auka framleiðslu, almennur markaður gæti orðið útundan í orkuuppbyggingu og neytendur fengju ekki rétt skilaboð. Önnur leið væri að gera verðlagningu á rafmagni skilvirkari. Hann bar saman verð á rafmagni hér og annars staðar á Norðurlöndum undanfarin ár. Verðið er hærra þar og það sveiflast meira, en engin þessara grannþjóða hefur þó séð ástæðu til þess að grípa inn í markaðinn. Rafmagn til neytenda er reyndar niðurgreitt annars staðar en í Danmörku. Daði minnti á að innan við 3% af útgjöldum heimila væru til kaupa á rafmagni. Inngrip í þennan markað væru óskilvirk leið til þess að jafna tekjur. Stærsta fyrirstaðan gegn markaðslausn væri mikil pólitísk og almenn andstaða við það að viðurkenna að rafmagn væri markaðsvara og að framboð á henni væri takmarkað. 

Líflegar umræður urðu að loknum fyrirlestrinum, en meðal áheyrenda voru margir fagmenn í greininni. Áheyrendur voru 30 á staðnum, en að auki fylgdust fimm manns með á streymi. 

Hér má sjá upptöku af málstofunni, en hér eru glærur Daða.