Header Paragraph

Mannfjölgun á árunum 2015-2021 ofmetin um 5 til 20 þúsund

Image
Húsnæðiskostnaður eigenda og leigjenda

Þorsteinn Víglundsson ritaði í haust grein á Vísi þar sem hann færði rök að því að landsmenn væru oftaldir í þjóðskrá. Menn þyrftu að skrá sig inn í landið, en ekki úr landi. Erlendum starfsmönnum á vinnumarkaði hefði fjölgað miklu minna en skráðum erlendum ríkisborgurum undanfarin ár. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun bað Hagfræðistofnun um að kanna málið. Ýmsar vísbendingar um mannfjöldann voru skoðaðar. Mörgum þykir eflaust fróðlegt að heyra að rafmagnsnotkun heimila á mann hafi skroppið saman um 14% á árunum 2010-2019. Á sama tíma minnkaði rafmagnsnotkun heimila á mann í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, að jafnaði um tæp 7%. Auk þess var skoðuð neysla á mann á 26 fæðutegundum á árunum 2007 til 2021. Úr vörunum fæst nærri 70% af dagsþörf landsmanna af hitaeiningum, en gera má ráð fyrir að nokkuð fari til spillis. Stuðst var við tölur um innlenda matvælaframleiðslu og innflutning og leiðréttingar gerðar vegna komu erlendra ferðamanna og ferða Íslendinga til útlanda. Fyrsta myndin hér á eftir sýnir að neysla á mann minnkar frá 2017 og hún heldur áfram að minnka eftir að farsóttin skellur á. Það er ekki í samræmi við reynslu Dana og Breta, en passar ágætlega við þá skoðun að mannfjölgun á Íslandi á þessum árum sé ofmetin.  

En einnig má fá vísbendingar um mannfjölgun með því að bera saman tölur um hlutfall fólks í starfi í vinnumarkaðskönnun Hagstofu og skrá ríkisskattstjóra um öll störf (sjá næstu mynd á eftir). 

Sjá má að myndirnar spegla hvor aðra - að minnsta kosti seinni hluta tímans sem skoðaður er. Þær segja því að hluta til sömu sögu: Að mannfjölgun sé ofmetin í þjóðskrá. Sennileg skýring er að fólk hafi flust úr landi án þess að láta yfirvöld vita.  

Opinberar tölur um mannfjölda og húsnæði benda til þess að íbúðum á hverja fjölskyldu hafi fækkað um 5-6% á árunum 2015-2021. En tölur um húsnæðiskostnað benda til þess að hér hafi ekki skort húsnæði fyrr en á árinu 2023, eftir að fólk tók aftur að streyma hingað til þess að vinna í ferðaþjónustu. Húsnæðiskostnaður jókst miklu hægar en laun á árunum 2015 til 2021, bæði hjá húseigendum og leigjendum (samanber þriðju myndina hér á eftir). Húsnæðiskostnaður eigenda ræðst einkum af margfeldi raunvaxta og húsnæðisverðs. Raunvextir á húsnæðislánum lækkuðu mikið á tímabili, en húsnæðisverð hækkaði á móti.

En þótt margt bendi hér í sömu átt, er erfitt að ráða af þeim vísbendingum sem hér eru skoðaðar hvað fólki fjölgar miklu meira í þjóðskrá en rétt er. Miðað við vísbendingar af húsnæðismarkaði gæti mannfjölgun á árunum 2015-2021 hafa verið ofmetin um 15-20 þúsund. Ráða má af neyslu á matvörum að ofmatið sé jafnvel ríflega 20 þúsund manns. Samanburður á vinnumarkaðskönnun Hagstofu og starfaskrá Ríkisskattstjóra bendir til þess að ofmatið sé mun minna, eða nálægt 5.000 manns. Hagstofan sendi í nóvember frá sér nýtt manntal, sem tekið var í byrjun árs 2021. Í manntalinu voru landsmenn taldir tæpum 10 þúsundum færri en í þjóðskrá. Eitt og annað benti til þess að sú tala væri fremur of lág en hitt. En þarna er reyndar horft á mannfjölda, en ekki mannfjölgun á nokkurra ára tímabili eins og í tölunum á undan. Tölurnar eru því ekki alveg sambærilegar.

Snemma árs 2022 hurfu síðustu hindranir á ferðir fólks vegna farsóttarinnar. Erlendum ferðamönnum fjölgaði á ný og aftur vantaði fólk frá útlöndum til þess að sinna þeim. Landsmönnum fjölgaði um 9.000 frá ársbyrjun til loka september. Um leið tók þörf fyrir húsnæði aftur að aukast.

Nánari grein er gerð fyrir ofmati á mannfjölgun og áhrifum á mat á húsnæðisþörf í minnisblaði Hagfræðistofnunar.

 

Image
Hitaeiningar á mann á dag
Image
Mat á fólksfjölda í ljósi vinnumarkaðskönnunar og starfaskrár Ríkisskattstjóra
Image
Húsnæðiskostnaður eigenda og leigjenda