Hóflegir kjarasamningar tryggja ekki sigur á verðbólgu
Spáð er 5-6% verðbólgu á árinu, en að húsnæðisverð hækki um 10%. Gert er ráð fyrir að laun hækki að meðaltali um 7% og kaupmáttur vaxi því lítillega. Ýmis merki eru um að heldur sé að draga úr þenslu, en áfram er búist við að gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgi, þrátt fyrir bakslag í byrjun árs. Eins og áður er stuðst við líkan með mánaðargögnum, sem spáir sér að miklu leyti sjálft.
Athygli vekur sennilega að ekki sé búist við að hraðar dragi úr verðbólgu í kjölfar hóflegra kjarasamninga. Launahækkanir eru lengur að koma fram í verðlagi en áður. Á seinni árum flækir það líka samband launa og verðlags að lægstu kauptaxtar eiga þátt í að verðleggja Ísland sem ferðamannaland. Þegar lægstu laun hækka verður dýrara að ferðast hingað og þensla minnkar í ferðaþjónustu.
Líklegt er að vextir verði áfram háir. Fjölgun ferðamanna er meginskýringin á háum vöxtum, en ferðaþjónustan ber minni hluta af kostnaðinum við þá en flestar atvinnugreinar. Ferðaþjónustufyrirtæki geta tekið lán í erlendum gjaldmiðlum, eins og önnur útflutningsfyrirtæki, og greiða því ekki háa krónuvexti. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, og fleiri leggja til að skattar á ferðaþjónustu hækki. Skattlagning er oft besta leiðin til þess að tryggja ábata heimamanna af ferðaþjónustu.
Nánar er fjallað um spána hér.