Header Paragraph

Hægt dregur úr verðbólgu á fyrri hluta árs

Image

Á skuldabréfamarkaði er enn vænst 3½-4% verðbólgu næstu fimm til tíu ár. Væntingar um verðbólgu næstu fimm árin hafa heldur verið á niðurleið, en tíu ára væntingar hafa í nokkur ár verið nálægt 4%. Verðbólguvæntingar hækkuðu um 0,2-0,4% þegar úrslit kosninga lágu fyrir í byrjun desember 2024. 

Þótt hagvöxtur sé lítill er atvinnuleysi með minnsta móti samkvæmt rannsókn Hagstofunnar. Enn virðist vera spenna á vinnumarkaði. Áfram er búist við að hægt dragi úr verðbólgu og að ársverðbólga verði um 4% um mitt ár 2025. Því er spáð að húsnæðisverð hækki áfram með um 10% árshraða og að meginvextir Seðlabanka haldist háir. Spáin er úr einföldu líkani sem spáir sér að miklu leyti sjálft. Óskhyggja eða fordómar hafa því ekki mikil áhrif á hana, þótt hún sé ónákvæm. 

Verðhækkun á húsnæði stafar fyrst og fremst af hraðri fólksfjölgun á árunum 2021-2023. Framboð á húsnæði breytist alltaf hægt, en undanfarin ár hafa litlu færri íbúðir bæst við en á þensluárunum fram að hruni bankanna 2008. Hlutfall húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hefur hækkað um 70-80% frá 2010. Það hefur skilað sér í fjölgun nýrra íbúða - en á nýliðnum misserum hefur reyndar aftur hægst á húsbyggingum vegna hárra vaxta.

Ný ríkisstjórn boðar aukin umsvif á ýmsum sviðum. Á móti er rætt um auðlindagjöld og komugjöld á ferðamenn. Samtals gætu þessir tekjuliðir ef til vill skilað ríkissjóði 20-25 milljörðum króna á ári. Í stjórnarsáttmála er auk þess talað um að hagræða, bæta skattskil og loka glufum í skattkerfinu. Þetta eru ekki nýjar hugmyndir og erfitt að giska á hvað þær skila miklu. Erfitt getur reynst að koma í veg fyrir að starfsemi hins opinbera ýti undir þenslu á komandi árum. 

Þetta og fleira var rætt á kynningu Sigurðar Jóhannessonar á Hagfræðistofnun 17. janúar. Þar urðu skemmtilegar umræður, þó að áheyrendur væru fáir. Glærur Sigurðar má sjá hér.