Þorvaldur Gylfason ræddi um hagvöxt í Hvíta-Rússlandi og Litháen á málstofu í hagfræði 17. desember í stofu 101 í Odda. Fyrirlesturinn er byggður á grein þeirra Eduards Hochreiters To Grow or Not to Grow: Belarus and Lithuania. Löndin hafa farið ólíkar leiðir. Litháen er aðili að Evrópusambandinu og tók upp evru eftir að landið hafði staðist skilyrði um það. Þar er lýðræði og frjálst markaðskerfi. Í Hvíta-Rússlandi er forsetinn hins vegar nánast einvaldur og kosningaúrslitum hagrætt. Framleiðslukerfið hefur verið kallað ríkiskapítalismi. Nóg atvinna er í boði og tekjumunur er minni en í Litháen. Viðskipti eru mest við Rússland. Litháar geta flutt til annarra Evrópusambandsríkja ef þeir vilja og íbúum hefur fækkað um fjórðung frá því að kommúnisminn hrundi. Hvít-Rússum hefur fækkað um 8% á sama tíma. Framleiðsla hefur samt aukist álíka mikið í báðum ríkjum ef gengi er miðað við kaupmátt gjaldmiðlanna. Framleiðsla á mann eykst í Litháen, en stendur í stað í Hvíta-Rússlandi. Munurinn er meiri ef horft er á markaðsgengi gjaldmiðlanna, en rök hníga að því að það kunni að vera réttara. Gestir í sal og í streymi voru 13.

Upptöku af fyrirlestrinum má finna hér.