Á málstofu 12. maí síðastliðinn ræddi Sigurður Jóhannesson um einokunarverslunina og skoðanir sagnfræðinga á henni. Hann rifjaði upp deilur sem urðu í kjölfar þess að 6. bindi Sögu Íslands kom út, en Guðrún Ása Grímsdóttir sagnfræðingur taldi að þar væri dreginn taumur konungs og kaupmanna. Prófessorarnir Helgi Þorláksson og Gísli Gunnarsson héldu uppi vörnum fyrir bókina. Einokunarverslunin hefði verið hagspeki tímans en ekki sérstök aðferð Dana til þess að kúga Íslendinga. Stjórnvöld hefðu hugsað um hag Íslendinga. Báðir lögðu áherslu á að kveða þyrfti niður söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar og Gísli nefndi sérstaklega söguskýringar Jónasar frá Hriflu í því sambandi. En í ljós kemur að Jónas leggur sig fram við að setja fram rök konungs fyrir fyrirkomulaginu - líka umdæmaversluninni, sem hlotið hefur verst eftirmæli. Reyndar rekur hann líka skuggahliðar einokunarinnar og heldur sig þar mikið við frumheimildir, eins og víðar í Íslandssögu sinni. Samtímaheimildir benda eindregið til þess að mikil umskipti til hins verra hafi orðið með einokuninni. Minnt var á þau orð Adams Smiths að einokunarverslun væri besta leiðin til þess að draga úr náttúrlegum vexti nýlendna. Að lokum var komið inn á þá kenningu Helga Þorlákssonar að Íslendingar hefðu fyrr á öldum ekki verið háðir viðskiptum við önnur lönd. Sigurður nefndi vísbendingar sem bentu í aðra átt. Fram kom í umræðum að ekki hefði verið farið að fleyta trjám eftir ám í Síberíu fyrr en um 1700 og fram að því hefði reki verið minni hér á landi. 

Tólf manns hlýddu á fyrirlesturinn og voru umræður fjörugar. Glærur Sigurðar má sjá hér.  

Share