
Samkeppni og einokun eru viðfangsefni hagfræðinga og sagnfræðinga. Flestir telja að einokun sé óhagkvæm fyrir neytendur og rannsóknir benda líka til þess að hún dragi úr hagkvæmni framleiðslu. Fyrr á öldum fengu einstakir kaupmenn eða hópar þeirra oft einkarétt til þess að versla við nýlendur. Adam Smith sagði í hinu fræga riti sínu, Auðlegð þjóðanna, sem út kom árið 1776, að þetta væri besta leiðin til þess að draga úr hagvexti í nýlendunum og það skaðaði raunar móðurlöndin líka. Árið 1602 veitti Danakonungur kaupmönnum í þrem dönskum borgum einkaleyfi til þess að versla við Íslendinga. Árið 1787 var verslunin gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs og árið 1854 komst á fullt verslunarfrelsi. Tölur um hagvöxt á Íslandi á einokunartímanum liggja ekki fyrir. Besta vísbendingu um hann gefa sennilega fólksfjöldatölur, en þær ná aftur til 1703. Fólksfjöldi stóð hér um bil í stað á Íslandi frá 1703 til 1780, en ætla má að á sama tíma hafi öðrum norrænum þjóðum fjölgað um 0,2-0,5% á ári. Þetta getur átt sér margar skýringar, en tölurnar eru í ágætu samræmi við orð Adams Smiths um áhrif einokunar.
Rætt er nánar um einokunarverslun og áhrif hennar í svari við spurningu á vísindavef háskólans.