Header Paragraph

Deilt um sjókvíaeldi á laxi og byggðastefnu

Image

Rætt var um sjóeldi á laxi og byggðastefnu á málstofu Hagfræðistofnunar 22. mars síðastliðinn. Mest munar um eldið á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar á það mestan þátt í því að íbúum hefur fjölgað um 11% á tíu árum, en fólki hafði áður fækkað á svæðinu. Mikill velvilji er í garð fyrirtækja sem skapa störf í brothættum byggðum, en Sigurður Jóhannesson nefndi tvö dæmi um ívilnanir til sjóeldisfyrirtækja: a) Leyfi til laxeldis í sjó, sem ríkið hefur úthlutað án endurgjalds, eru talin um 100 milljarða virði og b) Þegar úrskurðarnefnd auðlindamála afturkallaði leyfi tveggja fyrirtækja til þess að rækta lax í Tálknafirði og Patreksfirði haustið 2018 var lögum breytt í skyndi þannig að veita mátti bráðabirgðaleyfi fyrir eldinu. Taldi hann þetta bera vott um að litið væri á umhverfismat sem formsatriði. Sigurgeir Bárðarson, lögfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, andmælti því og sagði mörg dæmi um að staðsetningu sjókvía væri breytt í kjölfar athugasemda sem fram kæmu í umhverfismati. Fyrirtæki í sjókvíaeldi greiða ýmis gjöld sem ekki eru lögð á önnur fyrirtæki. Tekjur af gjöldunum renna í sjóði sem styðja við rannsóknir í fiskeldi og uppbyggingu iðnviða í grennd við fiskeldi. Sigurgeir benti á að aðeins hluti gjaldanna færi til þessara mála, en að stórum hluta rynnu þau beint í ríkissjóð.

Um það bil 20 manns sóttu málstofuna, en þar urðu fjörugar umræður, eins og hér hefur komið fram. Málstofan var ekki tekin upp, en hér má sjá glærur Sigurðar og hér er samtal hans og Gunnars Smára Egilssonar á Samstöðinni þar sem farið er yfir þessi mál. Eitthvað ruglast Sigurður í landafræðinni, en hann nefnir nokkrum sinnum Búðardal þar sem hann á sennilega við Bíldudal.

Eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar um sjókvíaeldi var birt fyrr á þessu ári komu fram margar góðar athugasemdir við hana frá Ástu Björk Sigurðardóttur og Sigurgeiri Bárðarsyni hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Í kjölfarið var samanburður á skattgreiðslum á Íslandi og í Noregi endurskoðaður og minni breytingar gerðar hér og þar í skýrslunni. Þá tekur endurskoðuð útgáfa skýrslunnar mið af nýjum mannfjöldatölum Hagstofu, sem birtar voru í mars, en þar lækkuðu tölur um fjölda erlendra ríkisborgara hér á landi. Að auki hefur umfjöllunin verið uppfærð í samræmi við nýjustu tölur um framleiðslu, útflutning og fleira.